Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Kjörskrá

Gerð kjörskrár

Sveitarstjórnir gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna frá Þjóðskrá Íslands en enginn getur neytt kosningarréttar nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram. Kjörskrá skal lögð fram fyrir almenning eigi síðar en 30. mars 2011.

Hverjir eru teknir á kjörskrá?

Þeir íbúar sveitarfélags sem uppfylla öll kosningarréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár. Eftirfarandi eru skilyrði þau er uppfylla þarf:

  1. Vera 18 ára þegar kosning fer fram.
  2. Vera íslenskur ríkisborgari.
  3. Vera skráður með lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag, 19. mars 2011.

Einnig eru teknir á kjörskrá íslenskir ríkisborgarar sem eru búsettir erlendis og hafa náð 18 ára aldri en uppfylla nánar tiltekin skilyrði. Þessi skilyrði eru:

  1. Íslenskur ríkisborgari sem átt hefur lögheimili hér á landi á kosningarrétt í átta ár frá því að hann flutti lögheimili sitt af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag.
  2. Ef meira en átta ár eru liðin frá því að aðili átti hér síðast lögheimili eins og segir frá í a-lið, getur hann sótt um kosningarrétt á þar til gerðu eyðublaði til Þjóðskrár Íslands, enda sé hann enn íslenskur ríkisborgari. Umsókn sem berst með þessum hætti til Þjóðskrár Íslands skal ekki tekin til greina ef hún berst meira en einu ári áður en átta ára rétturinn fellur niður. Þeir sem teknir eru á kjörskrá með þessum hætti fara á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast lögheimili og gildir sú skráning í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram.

Hvar lenda íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis sem teknir eru á kjörskrá ef þeir voru áður með lögheimili í Reykjavík?
Þeir sem fæddir eru í fyrri hluta hvers mánaðar verða í Reykjavíkurkjördæmi suður og þeir sem eru fæddir í síðari hluta hvers mánaðar verða teknir á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður. Landskjörstjórn auglýsir hvaða mánaðardagur skiptir þessum kjósendum milli kjördæmanna og verður það birt hér.

Hverjir eru ekki teknir á kjörskrá?
Einstaklingur er ekki tekinn á kjörskrá í tilteknu sveitarfélagi nema hann hafi verið skráður með lögheimili í því samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 3 vikum fyrir kjördag. Það er því hin opinbera skráning í þjóðskrá sem gildir. Ekki er hægt að bæta manni á kjörskrá í sveitarfélagi hafi honum láðst að tilkynna nýtt lögheimili til Þjóðskrár Íslands fyrir fyrrgreindan viðmiðunardag kjörskrár.

Framlagning kjörskrár

Kjörskrá skal liggja frammi almenningi til sýnis eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Algengast er að hún liggi frammi hjá skrifstofum sveitarfélaganna á almennum skrifstofutíma, en sveitarstjórn er falið að auglýsa framlagningarstað.

Athugasemdir við kjörskrá

Hver sem er getur gert athugasemdir við sveitarstjórn um að nafn vanti á kjörskrá eða sé þar ofaukið. Slíkar athugasemdir er heimilt að gera fram á kjördag. Komi fram athugasemd um að nafn skuli tekið af kjörskrá skal það þegar tilkynnt hlutaðeigandi einstaklingi. Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast við kjörskrá og gera leiðréttingu á henni ef við á. Heimilt er að gera slíka leiðréttingu fram á kjördag. Enn fremur skal sveitarstjórn leiðrétta kjörskrá ef henni berst vitneskja um andlát eða um að einhver hafi öðlast eða eftir atvikum misst íslenskt ríkisfang. Sveitarstjórn skal tilkynna hlutaðeigandi um leiðréttingar á kjörskrá og þeirri sveitarstjórn annarri sem málið getur varðað.