Athugið: Þessar síður fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur.
        Smellið hér til að skoða upplýsingar í tengslum við alþingiskosningar 29. október 2016


Spurningar og svör

Spurningar og svör

Hvenær hefst og hvenær lýkur kosningu á kjördag?

Upphaf: Kjörstaðir skulu opnaðir á bilinu 9-12 árdegis og skal sveitarstjórn eða yfirkjörstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með hæfilegum fyrirvara.

Lok: Meginreglan er að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.

Að öllu jöfnu hefst kosning kl. 9 að morgni og lýkur kl. 22 að kvöldi.

Kjördæmi og kjörskrá

Hvernig veit ég í hvoru kjördæmi Reykjavíkur ég á að kjósa ef ég bý þar?

Reykjavíkurkjördæmi suður Kjósendur sem búa við sunnanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut eða Vesturlandsveg verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Reykjavíkurkjördæmi norður Kjósendur sem búa við norðanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut eða Vesturlandsveg verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður. Kjalarnes (póstnúmer 116) tilheyrir Reykjavíkurkjördæmi norður.

Grafarholtshverfi (póstnúmer 113), austan Vesturlandsvegar, var áður innan marka Reykjavíkurkjördæmis norður en skiptist nú milli suður- og norðurkjördæmis um Kristnibraut, Gvendargeisla og Biskupsgötu eins og nánar kemur fram í auglýsingu landskjörstjórnar. Kjósendur sem búa sunnan við þessar götur verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem búa við þessar götur að norðanverðu verða á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Sjá frétt frá landskjörstjórn um mörk kjördæmanna í Reykjavík.

Hvar í Reykjavík eru íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis teknir á kjörskrá ef þeir áttu þar lögheimili við brottflutning frá landinu?

Þeir sem fæddir eru í fyrri hluta hvers mánaðar verða í Reykjavíkurkjördæmi suður og þeir sem eru fæddir í síðari hluta hvers mánaðar verða teknir á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi norður. Samkvæmt tilkynningu landskjörstjórnar greiða þeir sem eru fæddir 1. til 15. hvers mánaðar atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem eru fæddir 16. dag mánaðar eða síðar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Sjá tilkynningu landskjörstjórnar hér.

Hverjir eru ekki teknir á kjörskrá?

Einstaklingur er ekki tekinn á kjörskrá í tilteknu sveitarfélagi nema hann hafi verið skráður með lögheimili í því samkvæmt íbúaskrám þjóðskrár 3 vikum fyrir kjördag, 19. mars 2011. Það er því hin opinbera skráning í þjóðskrá sem gildir. Ekki er hægt að taka mann á kjörskrá í sveitarfélagi hafi honum láðst að tilkynna nýtt lögheimili til Þjóðskrár Íslands fyrir fyrrgreindan viðmiðunardag kjörskrár.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla

Hvar kýs ég ef ég bý erlendis? Er hægt að kjósa bréfleiðis eða rafrænt?

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis er alfarið í höndum utanríkisráðuneytisins. Atkvæðagreiðslan fer fram í öllum sendiráðum Íslands erlendis. Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Lista yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins. Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er í boði. Kosningalögin byggjast á því að allir kjósendur gefi sig persónulega fram hjá kjörstjóra.

Hvert á að senda atkvæði greitt utan kjörfundar?

Þeir sem kjósa utan kjörfundar, bæði innanlands og utan, eiga að fá leiðbeiningar á kjörstað um það hvernig standa skal að sendingu atkvæðis. Utankjörfundaratkvæði skal komið til yfirkjörstjórnar eða sýslumanns í því kjördæmi sem kosið er. Sem dæmi má nefna að ef þú kýst í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu sendir þú atkvæði þitt til Sýslumannsins í Reykjavík, kjósir þú í NA kjördæmi þá sendir þú atkvæði þitt t.d. til sýslumannsins á Akureyri, Eskifirði eða Seyðisfirði. Lista yfir sýslumenn er að finna hér.

Kjósandi erlendis þarf sjálfur að koma atkvæði sínu til hlutaðeigandi yfirkjörstjórnar á Íslandi, eða sýslumannsins í Reykjavík ef ekki er ljóst hvert atkvæðið á að fara. Kjósandi getur beðið kjörstjóra að koma atkvæðinu til skila gegn greiðslu burðargjalds. Lista yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

Ég er íslenskur ríkisborgari með lögheimili erlendis en var áður með lögheimili í Reykjavík, í hvoru kjördæminu kýs ég þá?

Þeir sem eiga lögheimili erlendis og eru á kjörskrá og voru síðast skráðir til heimilis í Reykjavík skiptast á eftirfarandi hátt milli kjördæma:

Þegar íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis eiga í hlut verður miðað við að þeir sem fæddir eru í fyrri hluta hvers mánaðar verði í suðurkjördæmi og að þeir verði í norðurkjördæmi sem fæddir eru í síðari hluta hvers mánaðar. Samkvæmt tilkynningu landskjörstjórnar greiða þeir sem eru fæddir 1. til 15. hvers mánaðar atkvæði í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem eru fæddir 16. dag mánaðar eða síðar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Sama regla gildir um þá sem skráðir eru óstaðsettir í hús í Reykjavík.

Ég er íslenskur ríkisborgari sem hef átt lögheimili erlendis í meira en átta ár. Get ég sótt um að komast á kjörskrá til að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni?

Hafir þú ekki verið búinn að sækja um skráningu á kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands  fyrir 1. desember 2010 átt þú ekki rétt á að kjósa við þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl 2011.

Fyrirgerir utankjörfundaratkvæðagreiðsla rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag?

Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þó hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæðaseðill hans þá ekki til greina við kosninguna.


Ýmislegt

Hvað geri ég ef ég hef áhuga á að vinna á kjörstað eða innan kjördeilda? Hvar er hægt að sækja um slík störf?

Þeir sem hafa áhuga á að starfa á kjörstað eða innan kjördeilda skulu hafa samband við sveitarstjórn síns sveitarfélags.

Hverjir sjá um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar?

Framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar er samvinnuverkefni nokkurra opinberra aðila. Má þar nefna innanríkisráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, landskjörstjórn, utanríkisráðuneytið, sveitarstjórnir, sýslumenn og kjörstjórnir.